Roman Pavlyuchenko, rússneski framherjinn í liði Tottenham, segist gjarnan vilja spila undir stjórn Sir Alex Ferguson í Manchester United, en orð hans koma eins og þruma úr heiðskíru lofti, rétt fyrir úrslitaleik liðanna í deildabikarnum.
„Það væri rangt af mér að eiga ekki þennan draum. Enska deildin er ástæðan fyrir því að maður spilar fótbolta. Og Man. Utd er efst í þeirri deild. Þegar fyrsti draumur þinn rætist, verður þú að finna nýjan draum,“ sagði Pavlyuchenko.
Hann talaði þó ekki vel um Dimitar Berbatov, sem fór frá Tottenham til Manchester United. „Robbie Keane fór en kom aftur og fékk lof fyrir. Ef Berbatov myndi koma aftur fengi hann ekki góðar móttökur. Ég heyrði að hann væri hrokafullur uppskafningur, sem grýtti skítugum skóm sínum til mannsins sem sér um skófatnað liðsins, með frekju og heimtaði að hann þrifi þá fyrir sig. Engum líkar við þannig fólk. En samt, hann spilar nú fyrir Manchester United,“ sagði Pavlyuchenko, sem áður hefur komið sér í fréttirnar fyrir hreinskilna skoðun sína á breskum mat og konum, en honum þótti hvortveggja álíka girnilegt og kúamykja.