Rafael Da Silva, Brasilíumaðurinn ungi sem leikur með Manchester United, verður frá keppni í mánuð og missir til að byrja með af úrslitaleik liðsins gegn Tottenham í enska deildabikarnum í knattspyrnu á sunnudaginn.
Rafael meiddist á ökkla í leik United gegn Blackburn síðasta laugardag og var ekki með gegn Inter Mílanó í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. Í dag var síðan staðfest að hann yrði ekki með liðinu næsta mánuðinn.
Rafael er aðeins 18 ára gamall og hefur spilað mikið sem hægri bakvörður með United í vetur, og alls tekið þátt í 21 leik liðsins á tímabilinu. Svo kann að fara að tvíburabróðir hans, Fabio, leysi hann af hólmi í úrslitaleiknum en bæði Gary Neville og Wes Brown sem hafa spilað í stöðu hægri bakvarðar hafa einnig glímt við meiðsli.