Benítez: Verður erfitt úr þessu að ná United

Rafael Benítez fylgist með sínum mönnum í leiknum gegn Middlesbrough …
Rafael Benítez fylgist með sínum mönnum í leiknum gegn Middlesbrough í dag. Reuters

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool vill ekki gefa titilvonirnar upp á bátinn þrátt fyrir tapið gegn Middlesbrough í dag. Hann segir þó að erfitt verði úr þessu að ná Manchester United en Liverpool er sjö stigum á eftir United sem á auk þess leik til góða.

,,Fyrir leikinn var baráttan erfið um titilinn en eftir þennan leik er hún enn erfiðari. Þetta veltur á United núna. Ef þú vilt vera á toppnum á verður þú að skora. Á fyrstu 20 mínútunum fengum við fimm góð færi til að skora og þú verður að nýta færin ef þú ætlar að vinna.

Við erum í vandræðum vegna meiðsla og sumir leikmenn mínir voru þreyttir en engu að síður náðum við að skapa okkur fullt af færum og fyrsta hálftímann réðum við algjörlega ferðinni,“ sagði Benítez eftir leikinn gegn Middlesbrough.

Þetta var annar tapleikur Liverpool í úrvalsdeildinni á tímabilinu en fyrr á tímabilinu tapaði það fyrir Tottenham.

Liverpool mætir Sunderland á þriðjudaginn og reiknar Benítez með að Steven Gerrard verði með í þeim leik en fyrirliðinn fór af velli þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum í dag.

,,Hann fékk krampa og þetta er ekkert alvarlegt. Hann ætti að verða klár í slaginn á móti Sunderland,“ sagði Benítez.








mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert