Mourinho spáir United titlinum

Jose Mourinho þjálfari Inter.
Jose Mourinho þjálfari Inter. Reuters

Jose Mourinho þjálfari Ítalíumeistara Inter segir að ekki einu sinni sitt gamla félag, Chelsea, geti komið í veg fyrir að Manchester United verði Englandsmeistari í ár.

Mourinho segir að Guus Hiddink nýskipaður knattspyrnustjóri Chelsea geti blásið lífi í leik Chelsea og það geti sett pressu á Manchester United en Portúgalinn telur meistararnir haldi sjó og hampi Englandsmeistaratitlinum þriðja árið í röð.

,,Guus hefur farið vel af stað og ég held að hann eigi eftir að stjórna Chelsea í mörgum sigurleikjum,“ segir Mouinho í viðtali við knattspyrnutímaritið Zoo. ,,Það er aldrei að vita hvað gerist í fótboltanum en ég held að United verði meistari,“ segir Mourinho sem fer með lærisveina sína á Old Trafford í næstu viku en þá mætast Inter og United í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en liðin gerðu markalaust jafntefli á San Síró.

Mourinho segir að sitt lið hafi ekkert að óttast þar sem það sé besta liðið í Evrópu. ,,Að mínu áliti er Inter besta lið Evrópu en Barcelona og Manchester United eru öflug og eru að gera það gott heima fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert