Rússneski knattspyrnumaðurinn Andrei Arshavin, sem er nýkominn í herbúðir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, hefur viðurkennt að deildin sé mun erfiðari en hann bjóst við og hann þurfi að komast í betra form.
„Ég horfði oft á enska boltann heima í Rússlandi. En í sannleika sagt virtist þetta miklu auðveldara í sjónvarpinu. Aðeins núna skil ég hversu erfiður og kraftmikill fótboltinn er hérna. En nú vil ég skora eins fljótt og mögulegt er. Allir bjuggust við því að ég myndi skora strax í fyrsta leik, en það gerist aldrei þegar ég á í hlut,“ sagði Arshavin á heimasíðu Arsenal.
Þar með er búið að afsanna þá kenningu þúsunda áhugamanna um ensku knattspyrnuna, sem jafnan segjast geta gert betur en leikmennirnir á vellinum, flatmagandi heima í stofu.