Marcello Lippi, þjálfari ítalska landsliðsins í knattspyrnu, vonast til að ítölsku liðin í meistaradeildinni, Roma, Inter og Juventus, komist áfram í undanúrslitin á kostnað andstæðinga þeirra, lið sem eru öll frá Englandi, en Lippi segir þau þó ekki vera ensk.
„Chelsea, Manchester United, Arsenal og Liverpool eru ekki fulltrúar enskrar knattspyrnu. Þetta er einnig svona annarsstaðar, þar sem hnattvæðingin ræður ríkjum. Hinn raunverulagi slagur enskra og ítalskra liða getur aðeins farið fram á milli landsliða þjóðanna,“ sagði Lippi.
Hann benti á að ekkert af þeim ensku liðum sem eftir eru í meistaradeildinni væru með enskan þjálfara og aðeins eitt liðanna, Arsenal, væru í eigu enskra aðila.
Athyglivert er að á þessari leiktíð hefur ekkert liðanna teflt fram fleiri en fjórum enskum leikmönnum að jafnaði í byrjunarliðum sínum.
Hjá Manchester United eru það Ferdinand, Carrick, Scholes og Rooney, meðan Neville, Brown og Hargreaves hafa verið meiddir.
Chelsea tefla fram Terry, Lampard og Ashley Cole, en Joe Cole hefur verið frá vegna meiðsla.
Liverpool notast helst við Gerrard og Carragher, meðan enginn byrjunarleikmaður Arsenal er enskur, en Theo Walcott hefur verið meiddur.