Guðjón Þórðarson knattspyrnustjóri Crewe sagði eftir sjöunda sigur liðsins í ellefu deildaleikjum undir hans stjórn í dag að hann hefði allan hug á því að semja við félagið til lengri tíma. Hann gerði um áramótin samning um að stýra liðinu til vorsins.
Á spjallsíðum Crewe og óopinberum síðum tengdum félaginu var fullyrt fyrir leikinn að Guðjón væri í þann veginn að yfirgefa félagið, bæði vegna deilna um samningsmál og vegna árekstra við Dario Gradi, sem stýrði félaginu í hálfan þriðja áratug og stjórnaði liðinu til bráðabirgða áður en Guðjón tók við því um áramótin.
Þar voru stuðningsmenn hvattir til að sýna Guðjóni veglegan stuðning á leiknum gegn Hereford í dag. Þar vann Crewe, 2:1, og lyfti sér uppí 19. sætið af 24 liðum. Crewe hefur nú fengið 21 stig frá áramótum, eftir að Guðjón tók við, en hafði aðeins fengið 16 stig úr 23 leikjum fyrir áramót og sat þá á botninum.
„Ég er mjög ánægður með hvernig hlutirnir hafa þróast. Ég vil vera hér lengi og tel að ég geti enn bætt margt hjá f élaginu. Ég átti gott samtal við stjórnarformanninn og vona að ég geti verið hér lengur því ég er viss um að ég geti byggt upp hér til lengri tíma," sagði Guðjón við ITV etir leikinn.
„Sigurinn var ákaflega mikilvægur. Við vildum bæta fyrir tapið í vikunni og sýndum að ef leikur okkar er nægilega agaður getum við náð fram þeim úrslitum sem við viljum," sagði Guðjón í viðtalinu.