Adebayor spilar ekki í Róm

Emmanuel Adebayor er enn frá keppni.
Emmanuel Adebayor er enn frá keppni. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði í morgun að útilokað væri að sóknarmaðurinn Emmanuel Adebayor yrði leikfær fyrir seinni leikinn gegn Roma í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu sem fram fer í Róm á miðvikudagskvöldið.

Adebayor hefur verið frá keppni í einn mánuð, eftir að hann tognaði aftan í læri í leik gegn Tottenham.

Wenger sagði að góðar líkur væru hinsvegar á því að Kolo Toure yrði með. Hann meiddist gegn WBA í síðustu viku og spilaði ekki bikarleikinn gegn Burnley í gær.

Eduardo og Theo Walcott léku báðir með gegn Burnley og góðar líkur eru á að þeir spili í Róm.

„Ég bíð og sé hvernig staðan verður á Kolo áður en ég ákveð byrjunarliðið. Við förum í leikinn í Róm fullir sjálfstrausts og gífurlega löngun í að komast áfram í keppninni. Það jákvæða er að við fengum ekki á okkur mark á heimavelli og við  vitum að það þýðir ekkert að fara bara til að verjast. Við munum sækja við hvert tækifæri og reyna að skora," sagði Wenger við Sky Sports en Arsenal vann fyrri leikinn í London, 1:0.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert