Mourinho segir Chelsea ,,vandræðalegt"

Mourinho er enn við sama heygarðshornið.
Mourinho er enn við sama heygarðshornið. Reuters

José Mourinho, knattspyrnustjóri Inter á Ítalíu, skýtur föstum skotum á sitt gamla lið Chelsea og segir liðið vera vandræðalegt. Hann hefði sjálfur aldrei leyft Manchester United að ná sjö stiga forystu í deildinni.

„Jú, Manchester er besta liðið á Englandi en þú verður að spyrja þig hversu sterk úrvalsdeildin sé, eftir að ég fór til Ítalíu. Manchester hefur unnið þetta auðveldlega síðan ég fór, því enginn stjóri hefur getað sett saman nægilega sterkt lið til að keppa við þá. Þeir eru með flott lið, en eru leikmenn þeirra virkilega svona miklu betri en Chelsea eða Liverpool? Ég held ekki. Það hlýtur eitthvað annað að vera vandamálið og einhver þarf að bera ábyrgð á því. Chelsea vantar stöðugleika. Arsenal er hvergi og Liverpool er í hættu, en ég held að enginn hafi í raun búist við því að þeir myndu vinna titilinn. Ég myndi aldrei leyfa mínu liði að vera svo langt á eftir. Þetta er vandræðalegt hjá Chelsea, svona snemma í mars,“ sagði Mourinho af sinni alkunnu hógværð.

Mourinho viðurkenndi um daginn að það væri alls óvíst að hann kláraði samning sinn við Inter og gaf því þeim orðrómi byr undir báða vængi að hann gæti snúið aftur til Englands á næsta tímabili. Hafa lið Chelsea og Liverpool helst verið nefnd sem mögulegir áætlunarstaðir hans, en einnig er því velt upp að hann gæti tekið við Sir Alex Ferguson, sem gæti brugðið á það ráð að hætta loksins, ef United tekst að vinna í það minnsta tvennuna svokölluðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert