Spretthlauparinn Usain Bolt, sem setti heimsmet í 100 og 200 metra hlaupi og 400 metra boðhlaupi í Peking í sumar, og má með sanni kalla fljótasta mann jarðkringlunnar, ætlar að kenna Cristiano Ronaldo, besta knattspyrnumanni heims, að hlaupa aðeins hraðar, en Ronaldo þykir nú fljótur fyrir.
Ætla kapparnir að hittast í sumar þegar Bolt tekur þátt í keppni í Berlín í ágúst.
„Þetta mun pottþétt eiga sér stað. Við munum skipuleggja þetta nánar þegar Bolt kemur til Evrópu,“ sagði Ricky Simms, umboðsmaður Bolt.
Frumkvæðið að þjálfuninni mun vera komið frá Bolt sjálfum, sem er mikill aðdáandi Ronaldo.
Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem heimsfrægur spretthlaupari tekur að sér heimsfrægan knattspyrnumann, því Ben Johnson hjálpaði Diego Armando Maradona seint á tíunda áratugnum, en þá höfðu þeir báðir tekið út sína refsingu fyrir notkun ólöglegra lyfja.