Anelka og Essien með í kvöld?

Essien og félagar fagna marki gegn Fenerbache í meistaradeildinni í …
Essien og félagar fagna marki gegn Fenerbache í meistaradeildinni í apríl í fyrra. Essien verður að öllu óbreyttu í byrjunarliði Chelsea í kvöld, í fyrsta skipti í hálft ár, frá því að hann sleit krossbönd í hné. Reuters

Talið er að Nicolas Anelka og Michael Essien, leikmenn Chelsea, gætu byrjað leikinn gegn Juventus í kvöld, í seinni leik liðanna í meistaradeildinni. Anelka hefur glímt við támeiðsli, en Essien hefur ekki byrjað leik í hálft ár vegna hnémeiðsla.

„Essien er kominn aftur og hann getur gefið mikið af sér líkt og áður. Hann hefur verið frá lengi þannig að það er ekki auðvelt fyrir hann að ná taktinum strax. En hann er mjög sterkur, mjög jákvæður og hann getur haft úrslitaáhrif. Hann er tilbúinn í byrjunarliðið,“ sagði Guus Hiddink þjálfari.

Óvíst er með þátttöku Anelka, en Hiddink gæti freistast til að byrja með Didier Drogba einan frammi, þó hann hafi hingað til kosið að spila með þá Anelka og Drogba saman í framherjastöðunum. En þar sem Anelka er tæpur vegna meiðsla og Chelsea vann fyrri leikinn 1:0, er óvíst að Hiddink vilji taka óþarfa áhættu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert