Guðjón Þórðarson og strákarnir hans í Crewe Alexandra verða í eldlínunni í kvöld en þá mæta þeir Walsall á útivelli í ensku 2. deildinni í knattspyrnu. Guðjón segir að jafntefli yrðu frábær úrslit en Walsall er í 13. sæti deildarinnar með 47 stig en Crewe í 19. sætinu með 37 stig.
,,Ég kann vel við fréttamenn. Þeir vilja alltaf fá þrjú stig en hvað er slæmt við það að ná í eitt stig á útivelli. Ég lít svo á að það yrðu frábær úrslit ef við næðum jafntefli gegn Walsall á útivelli,“ sagði Guðjón í útvarpsviðtali á BBC í dag.
Framherjinn Michael Ricketts, þekktasti leikmaður Walsall, verður ekki með í kvöld en hann tekur út fyrsta leikinn af fimm í banni en honum hefur þrívegis verið vikið af velli á tímabilinu.
Ricketts hefur leikið með liðum á borð við Leeds, Middlesbrough, Bolton og Stoke og þá á hann 1 leik að baki með enska A-landsliðinu sem hann lék fyrir sjö árum.