Mourinho neitar áhuga á Manchester United

Mourinho segist ekki vera að taka við Manchester United.
Mourinho segist ekki vera að taka við Manchester United. Reuters

José Mourinho, hinn litríki þjálfari Inter á Ítalíu, virðist ekki hafa í hyggju að taka við liði Manchester United, ef marka má orð talsmanns hans í gær.

Því hefur verið haldið fram í breskum fjölmiðlum að Mourinho girnist stöðu félaga síns, Sir Alex Ferguson, sem hefur ítrekað hætt við að hætta með Manchester United, en gárungar segja að Sir Alex gæti hætt eftir þetta tímabil, nái lið hans að vinna tvennuna eða þrennuna.

„Þessi fréttaflutningur er ekki réttur. Í fyrsta lagi er þetta vanvirðing við Ferguson, sem Mourinho lítur upp til og trúir að muni stjórna liðinu um ókomna framtíð. Þá er Mourinho með samning við Inter sem hann hyggst virða,“ sagði Eladio Parames, náinn samstarfsmaður Mourinho.

Aðeins fjórir dagar eru síðan Mourinho sagði þetta í La Gazzetta dello Sport:

„Mér líka breytingar. Ég breytti jafnvel útliti mínu í dag. Að halda út í boltanum krefst margra hluta, en ég er ekki að vinna fyrir neinn annan en mig. Er ég að fara frá Ítalíu? Maður veit aldrei í fótboltanum. Þú getur verið áfram í tvö, þrjú fjögur eða tíu ár, það veltur á ýmsu.“

Varla er hægt að segja að Mourinho hafi eignast marga vini í stjóratíð sinni hjá Inter, en hann hefur reitt marga þjálfara til reiði með ummælum sínum, auk þess sem hann hefur átt í þó nokkrum útistöðum við ítölsku pressuna. Er framtíð hans sögð velta á úrslitunum í meistaradeildinni; hann þurfi að sigra hana til að halda starfinu, ella verði hann látinn fara, þó svo að Inter vinni Seria A deildina, sem allar líkur eru á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert