José Mourinho, þjálfari Inter á Ítalíu, segir lið sitt standa betur að vígi fyrir seinni leik liðsins gegn Manchester United í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar sem fram fer á Old Trafford í Manchester í kvöld. Fyrri leikurinn fór 0:0 og dugir Inter því jafntefli með skoruðum mörkum.
„Þeir voru vonsviknir með að skora í ekki í fyrri hálfleiknum á San Siro, en við vorum vonsviknir að skora ekki í seinni hálfleiknum. Þeir héldu eflaust að þeir gætu knúið fram hagstæðari úrslit, því 0:0 jafntefli á útivelli eru ekki svo góð úrslit á þessu stigi í keppninni. Við vorum auðvitað vonsviknir einnig með úrslitin, 0:0 á heimavelli er ekki gott. En að mínu mati eru þetta betri úrslit fyrir liðið sem spilar seinni leikinn á útivelli,“ sagði Mourinho.
Eflaust eru ekki allir sammála honum um að Inter standi betur að vígi fyrir leikinn í kvöld, en ekki verður litið framhjá þeirri staðreynd að í síðustu 13 viðureignum þeirra Mourinho og Sir Alex Ferguson hjá Manchester United, hefur Ferguson aðeins unnið einn leik.