Fernando Torres, spænski markahrókurinn í liði Liverpool, kvíðir ekki leiknum gegn Manchester United um helgina, en Liverpool tók Real Madrid í karphúsið í meistaradeildinni í gær, 4:0, hvar Torres skoraði fyrsta markið.
„Við höfum nú trú á að við getum unnið United á laugardaginn. Það er stórleikur og ég vonast til að vinna hann og þar með auka líkur okkar á sigri í deildinni. Ég er mjög stoltur af frammistöðu okkar á móti Real, en við þurfum að vera í svipuðu stuði til að leggja Manchester að velli, því þeir eru með frábært lið og eru að spila á heimavelli,“ sagði Torres.
Liverpool er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 58 stig, líkt og Chelsea, en United er á toppnum með 65 stig.