Mourinho: Man.Utd getur unnið allt

José Mourinho þarf ekki oft að játa sig sigraðan.
José Mourinho þarf ekki oft að játa sig sigraðan. Reuters

José Mourinho, þjálfari Inter Mílanó, fór fögrum orðum um lið Manchester United í gærkvöld eftir að hann varð að játa sig sigraðan, 2:0, í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Mourinho, sem hafði aðeins tapað einu sinni fyrir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, í tólf leikjum sem stjóri Porto, Chelsea og Inter, sagðist hafa fulla trú á því að United myndi vinna alla titlana sem í boði væru í vor.

„Þeir eru í sínu allra besta formi. Þeir hafa reynsluna, hæfileikana, frábært líkamlegt ástand, og ákafann sem til þarf. Þessvegna eru þeir Evrópumeistara, þessvegna geta þeir unnið allt. Ég held að þeir vinni fimm titla," sagði Portúgalinn líflegi við BBC.

„United hefur verið með þetta lið í nánast fimm ár. Liðið var ungt en er það ekki lengur. Þetta er að grunni til sama lið og þegar ég var hjá Chelsea, bara Dimitar Berbatov hefur bæst við. United er geysilega hæfileikaríkt lið og sýndi í leikjunum við okkur hversvegna það er Evrópumeistari. Það er ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið verðskulduð úrslit," sagði Mourinho.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert