Manchester United fjarlægði í morgun ummæli Waynes Rooneys í garð Liverpool af vef sínum og talsmaður félagsins sagði að það væri gert til að koma í veg fyrir mistúlkun á þeim.
Rooney sagði í viðtali við sjónvarpsstöð Manchester United að sem Everton-maður frá æsku hefði hann alist upp við að hata Liverpool og það hefði ekkert breyst. Þessi ummæli voru klippt út áður en viðtalið var sýnt á stöðinni en þau voru birt á vef félagsins.
Manchester United og Liverpool mætast í sannkölluðum stórleik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í hádeginu á morgun og talsmaður United sagði að það hefði verið talið farsælast að fjarlægja ummæli Rooneys í garð Liverpool.
„Við töldum það besta kostinn fyrir þennan leik. Ummælin eru á þá leið að þau er hægt að mistúlka og leggja út frá þeim á verri veg og hvorki félagið né Wayne vilja sjá slíkt gerast," sagði talsmaður Manchester United við BBC í dag.