Franska fótboltagoðsögnin Zinedine Zidane, sem hætti knattspyrnuiðkun eftir HM 2006, segir að Steven Gerrard, leikmaður Liverpool og enska landsliðsins, sé besti leikmaður í heiminum í dag.
„Er hann bestur í heimi? Hann fær kannski ekki sömu athygli og Messi eða Ronaldo, en já ég held að hann sé bara sá besti. Ef þú hefur ekki leikmann eins og Gerrard, sem er mótorinn í vélinni, hefur það áhrif á allt liðið. Þegar ég var með Real MAdrid og við vorum að vinna deildina og meistaradeildina, þá var Claude Makalele alltaf mikilvægasti leikmaðurinn. Það er engin leið að ég, Figo, eða Raúl hefðum getað gert það sem við gerðum án þess að vera með Makalele í liðinu, og það sama á við um Gerrard. Hann er með frábærar sendingar, getur tæklað og skorað mörk, en mikilvægast af öllu, þá eykur hann traust og trú annarra leikmanna í kringum sig. Og það er ekki eitthvað sem þú lærir, það er meðfætt,“ sagði Zidane.
Gerrard á erfitt verkefni fyrir höndum á morgun, en þá mætir hann liði Manchester United á Old Trafford, í leik sem gæti skorið úr um enska meistaratitilinn. Tapi Liverpool leiknum gætu titilvonir þeirra verið endanlega úr sögunni, en með sigri gætu þeir hleypt spennu í lokasprettinn.