Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United kenndi slökum varnarleik sinna manna ófarirnar gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en United lá á heimavelli, 4:1.
,,Það er erfitt að verja 4:1 tap. Við náðum forystu en hentum síðan leiknum frá okkur. Það er erfitt að kyngja þessu en Manchester United er lið sem sýnir hvernig á að koma til baka. Við munum gera það en varnarleikurinn varð okkur að falli hér í dag,“ sagði Ferguson.
,,Nemanja hefur verið magnaður í okkar liði á tímabilinu en það kemur fyrir að leikmenn gera mistök og hann er bara mannlegur. Hann gerði sig sekan um mistök og það reyndist okkur dýrt. “