Ferguson sniðgengur Sky

Ferguson frábiður sér að tala við Sky Sports og BBC.
Ferguson frábiður sér að tala við Sky Sports og BBC. Reuters

Sir Alex Ferguson, hinn dyntótti knattspyrnustjóri Manchester United, hefur nú ákveðið að sniðganga Sky Sports sjónvarpsstöðina, að því er virðist, en hann neitaði stöðinni um viðtal, bæði fyrir og eftir leik liðs síns gegn Liverpool á laugardaginn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sir Alex ákveður að útiloka fjölmiðil, því hann hefur ekki talað við BBC síðan 2004, eða frá því að stöðin sýndi heimildarmynd um viðskiptahætti sonar hans, Jason, sem umboðsmanns knattspyrnumanna.

Ferguson hefur hinsvegar ekki gefið upp neinar ástæður fyrir þeirri ákvörðun sinni að veita ekki viðtal, en það eina sem hann lét hafa eftir sér í kjölfar 4-1 tapsins gegn Liverpool, var að Manchester liðið hefði verið betri aðilinn í leiknum.

Hinsvegar er talið að Ferguson sé ósáttur við leikjaniðurröðunina í deildinni, sem stjórnast af Sky Sports og enska knattspyrnusambandinu. Man. Utd spilaði leik í meistaradeildinni á miðvikudag, en Liverpool lék á þriðjudag og fékk því aukadag í hvíld.

Þegar liðin mættust tímabilið 2006-07, eftir að hafa bæði spilað í meistaradeildinni vikuna á undan, var leikurinn á sunnudegi, og er talið að Ferguson sé fúll yfir því að leikurinn hafi farið fram á laugardegi, en ekki sunnudegi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert