Liverpool burstaði Aston Villa, 5:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield í dag og er nú aðeins einu stigi á eftir Manchester United í baráttunni um enska meistaratitilinn. Steven Gerrard skoraði þrennu fyrir Liverpool sem er nú komið með betri markatölu en Manchester United, sem hinsvegar á leik til góða.
Manchester United er með 65 stig, Liverpool 64 og Chelsea 61. Liverpool náði að nýta sér vel ósigra hinna tveggja í gær en United tapaði þá óvænt fyrir Fulham og Chelsea fyrir Tottenham. Aston Villa er áfram í 5. sætinu með 52 stig.
Liverpool náði forystunni strax á 8. mínútu þegar Dirk Kuyt skoraði með föstu skoti rétt utan markteigs, 1:0.
Liverpool komst í 2:0 á 33. mínútu með einföldu marki. José Reina markvörður Liverpool þrumaði boltanum innfyrir vörn Villa þar sem Albert Riera tók hann viðstöðulaust í þverslána og inn!
Á 39. mínútu var brotið á Riera og dæmd vítaspyrna á Villa og úr henni skoraði Steven Gerrard af öryggi, 3:0.
Steven Gerrard var aftur á ferð á 50. mínútu þegar boltanum var rennt á hann úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs og hann skoraði með nákvæmu innanfótarskoti í markhornið hægra megin, 4:0.
Veislan hélt áfram á Anfield því á 65. mínútu fékk Brad Friedel rauða spjaldið fyrir að brjóta á Fernando Torres. Vítaspyrna og úr henni skoraði Steven Gerrard sitt þriðja mark, 5:0.
Liverpool: Pepe Reina, Alvaro Arbeloa, Jamie Carragher, Martin Skrtel, Fabio Aurelio, Javier Mascherano, Xabi Alonso, Steven Gerrard, Dirk Kuyt, Albert Riera, Fernando Torres.
Aston Villa: Brad Friedel, Nigel Reo-Coker, Carlos Cuellar, Curtis Davies, Luke Young, James Milner, Stiliyan Petrov, Gareth Barry, Ashley Young, Emile Heskey, John Carew.