Ledley King, fyrirliði Tottenham, er hissa en ánægður með að vera valinn í enska landsliðshópinn í knattspyrnu. Hann getur ekkert æft með liði sínu og mætir bara í leiki einu sinni í viku.
King glímir við þrálát hnémeiðsli og sá háttur er hafður á að hann æfir ekkert með liðinu alla vikuna, er bara í slökun og sjúkrameðferð, og spilar svo leiki um helgar. Hann hefur á þennan hátt náð 22 leikjum í vetur og átti stórleik með Tottenham á laugardaginn þegar liðið lagði Chelsea að velli, 1:0.
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, hefur ekki verið með King í sínum hópi frá því hann tók við en hreifst af frammistöðu hans gegn Chelsea og valdi hann í hópinn. England mætir Slóvakíu í vináttulandsleik og Úkraínu í undankeppni HM næsta laugardag og miðvikudag.
„Þetta er skrýtin staða, það eru eflaust ekki margir fótboltamenn sem eru valdir í landslið án þess að æfa. Hnéð bólgnar upp eftir hvern leik og ég þarf alltaf góðan tíma til að jafna mig. Ég hef lært að lifa með þessu og hef ekki gefið upp von um að þetta lagist með tíð og tíma. Vonandi get ég bætt aðeins í næsta vetur og æft meira," sagði King við The Mirror í dag. Hann er 28 ára gamall og hefur spilað 19 landsleiki fyrir Englands hönd, síðast í júní 2007.