Jamie Carragher, varnarjaxlinn reyndi hjá Liverpool, segir að sitt lið hafi sent Manchester United skýr skilaboð með frammistöðu sinni í síðustu leikjum - Liverpool sé tilbúið til að berjast við United alla leið um enska meistaratitilinn í knattspyrnu.
Ótrúlegir sigrar Liverpool í þremur síðustu leikjum, 4:0 gegn Real Madrid, 4:1 gegn Manchester United og 5:0 gegn Aston Villa, hafa heldur betur snúið hlutunum við hjá liðinu eftir köflótt gengi frá áramótum þar sem liðið missti forystuhlutverkið í hendur United og virtist úr leik í baráttunni. United tapaði síðan fyrir Fulham og skyndilega munar aðeins einu stigi á liðunum - United á þó leik til góða.
„Með þessum úrslitum höfum við sent skýr skilaboð til United og Chelsea og auðvitað vitum við að þeirra menn horfðu á okkar leiki. Nú vita Unitedmenn að þeir munu fá keppni um sigurinn í deildinni. Við erum að þroskast sem lið og erum að venjast þeim kröfum sem fylgja því að slást um titil. Við vorum á toppnum fyrr í vetur en það var nýtt fyrir okkur og við vissum ekki alveg hvernig átti að höndla það. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að United er með titilinn í sínum höndum en við munum reyna að setja eins mikla pressu á þá og mögulegt er," sagði Carragher við Sky Sports.