Vísindamenn við John Moores háskólann í Liverpool, hafa uppgötvað leyndarmálið á bakvið hina fullkomnu vítaspyrnu, sem nota má til þess að skora úr vítum í 100% tilvika, hvorki meira né minna.
Vísindamennirnir fundu út leyndarmálið með því að skoða margra klukkutíma efni af myndbandsupptökum af vítaspyrnum.
„Það eru margir þættir sem ber að líta til þegar hin fullkomna vítaspyrna er tekin. En við höfum loksins fundið út þessa helstu grunnþætti,“ sagði prófessor Tim Cable, framkvæmdastjóri íþróttafræða skólans.
Uppskriftin að hinni fullkomnu vítaspyrnu:
1) Aðhlaupsvinkill skal vera 20-30 gráður.
2) Taktu um 5-6 skref í aðhlaupinu.
3) Spyrntu knettinum um það bil hálfan metra frá stöng og slá, á ekki minna en 105 km hraða á klukkustund.
Með öðrum orðum: Þrumaðu knettinum í innanverð samskeytin.
Einhverjum gæti þótt þetta hægara sagt en gert, en menn sem eru með tugi milljóna í vikulaun fyrir knattspyrnuiðkun, ættu kannski að kynna sér rannsóknina.