Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United óttast mest lið Barcelona í baráttunni um Evrópumeistaratitilinn en átta liða úrslitin hefjast í næstu viku. United mætir Porto, Barcelona og Bayern München eigast við, Liverpool og Chelsea og Arsenal leikur gegn Villareal.
Evrópumeistarar Manchester United og Barcelona gætu mæst í úrslitaleiknum í Róm í maí en flestir eru þeirrar skoðunar að annað hvort liðið hampi titlinum í ár en þeim hefur þó fjölgað ótt og títt undanfarna daga sem spá því að Liverpool fari alla leið.
,,Barcelona er lið sem er í hörku formi, lið þeirra hefur verið frábært á tímabilinu og það eru allir sem veita þeim athygli. Frammistaða Barcelona í fyrri hálfleik í seinni leiknum á móti Lyon var hreint út sagt frábær en liðið skoraði þá fjögur mörk,“ segir Ferguson sem stefnir að því að vinna sinn þriðja Evrópumeistaratitil með Manchester-liðinu.
,,Barcelona er mikil ógn fyrir öll lið og það er réttilega sigurstranglegt. Ég tel meiri ógn standa af Barcelona en ensku liðunum,“ segir Ferguson sem hefur mátt sætta sig við að sjá sína menn tapa í síðustu tveimur leikjum, 4:1, á móti Liverpool og 2:0 gegn Fulham.
Ferguson segir Pep Guardiola þjálfari Börsunga hafi náð að bæta varnarleik liðsins til mikilla muna. ,,Ég er ekki alveg viss hvort lið Barcelona hafi bætt sig mikið frá því við mættum þeim á síðustu leiktíð en ég er þeirrar skoðunar að varnarleikurinn hjá liðinu sé betri síðan Guardiola tók við liðinu.“