Jose Mourinho þjálfari Inter segist tilbúinn að taka við stjórastöðunni af Sir Alex Ferguson hjá Manchester United þegar hann ákveður að hætta en gefið hefur verið í skyn að næsta tímabil verði það síðasta sem Ferguson verður við stjórnvölinn hjá Manchester-liðinu.
Þegar Mourinho var spurður hvort hann gæti hugsað sér að taka við Ferguson þegar hann hættir sagði Mourinho; Hver getur sagt nei? Enginn myndi hafna þv. En ég held að hann hætti ekki 2010. Ég held að verði eins næstu árin, hraustur og ánægður. Ég sé enga ástæðu fyrir hann að hætta og ég vona að hann haldi áfram,“ sagði Mourinho við ESPN sjónvarpsstöðina.
Mourinho segist eiga mjög gott samband við Ferguson sem hafði betur í rimmu liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en Englandsmeistararnir sendu Ítalíumeistarana út úr Meistaradeildinni.
,,Við vitum báðir hvernig er að tapa og við vitum hvernig á að vinna. Þetta vitum við eftir að hafa mæst 14 sinnum þar sem ég hef unnið, hann hefur unnið eða við höfum skilið jafnir. Eftir leikina er alltaf sama virðingin í gangi á milli okkar,“ segir Mourinho.
Mourinho útilokar ekki að í framtíðinni muni hann segja skilið við félagslið og taka að sér þjálfun landsliðs og nefnir hann í því sambandi bandaríska landsliðið.