Gary Neville, varnarmaðurinn reyndi, virðist tilbúinn í lokaslaginn með Manchester United eftir að hafa verið frá keppni undanfarna tvo mánuði vegna meiðsla í nára.
Neville er 34 ára og hefur unnið allt sem hægt er að vinna með United í ensku knattspyrnunni og Evrópukeppni. Hann lék í 60 mínútur með varaliði félagsins þegar það gerði jafntefli, 3:3, við Newcastle í gærkvöld og líkur eru á að hann komi inní leikmannahóp aðalliðsins fyrir viðureignina gegn Aston Villa á laugardaginn.
Annars var það 17 ára ítalskur piltur sem stal senunni í umræddum varaliðsleik en Federico Macheda skoraði öll þrjú mörk Manchester United í leiknum.