Búlgarski knattspyrnumaðurinn Dimitar Berbatov verður frá keppni í tvær vikur til viðbótar vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í leik Manchester United gegn Fulham fyrir hálfum mánuði síðan.
Hann missir þar með af mikilvægum leik United gegn Aston Villa í úrvalsdeildinni á sunnudaginn og útlit er fyrir að hann verði með í hvorugum leiknum gegn Porto í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Sömuleiðis eru litlar líkur á að hann spili gegn Sunderland í úrvalsdeildinni um aðra helgi.
Vegna meiðslanna lék Berbatov ekki með Búlgörum gegn Írlandi og Kýpur í undankeppni HM.
Framlína United er nokkuð löskuð fyrir leikinn gegn Aston Villa því Wayne Rooney tekur þá út leikbann, og svo er Carlos Tévez ókominn frá leik með argentínska landsliðinu í Bólivíu í fyrrinótt en þar tók hann þátt í sögulegum tapleik, 1:6, í tæplega 4.000 metra hæð yfir sjávarmáli.