Gerrard framlengir hjá Liverpool

Steven Gerrard skorar eitt af 22 mörkum sínum í vetur.
Steven Gerrard skorar eitt af 22 mörkum sínum í vetur. Reuters

Steven Gerrard, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Liverpool, hefur samþykkt að framlengja samning sinn við félagið um tvö ár og verður þá samningsbundinn því til ársins 2013.

Gerrard, sem er 28 ára gamall, hefur leikið allan sinn feril með Liverpool og hefur margsinnis látið í ljós þann hug sinn að spila hvergi annars staðar á ferlinum.

„Þetta eru stórkostlegar fréttir fyrir félagið. Hann hefur enn einu sinni sýnt hug sinn í garð Liverpool og þetta var auðveld samningsgerð. Um leið og við buðum honum framlengingu sagði hann já. Engin vandamál, hann vill vera hér allan sinn feril. Þessi samningur sendir skýr skilaboð um hvert við stefnum sem félag. Það er gífurleg hvatning fyrir félagið og stuðningsmennina að vita að við höfum leikmann á borð við Steven í okkar röðum í mörg ár í viðbót. Steven hefur gífurlega góð áhrif á samherja sína og þó hann leiki geysilega vel um þessar mundir, tel ég að hann eigi enn sín bestu ár fyrir höndum," sagði knattspyrnustjórinn Rafael Benítez á vef Liverpool í dag.

Gerrard hefur leikið geysilega vel undanfarnar vikur og hefur gert 22 mörk á tíma bilinu. Liverpool hefur nú saxað á forskot Manchester United í ensku úrvalsdeildinni og aðeins eitt stig skilur liðin að.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert