Ferguson: Áhættan borgaði sig

Alex Ferguson og stuðningsmenn Man. Utd fagna sigurmarki ítalska stráksins.
Alex Ferguson og stuðningsmenn Man. Utd fagna sigurmarki ítalska stráksins. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði að áhættan á að tefla fram hinum 17 ára gamla ítalska strák Federico Macheda í leiknum við Aston Villa í dag hefði heldur betur borgað sig.

Macheda, sem hafði aldrei áður spilað með aðalliði United, skoraði þrennu með varaliði félagsins á dögunum. Hann kom síðan inná sem varamaður eftir rúman klukkutíma og skoraði sigurmarkið, 3:2, á glæsilegan hátt í uppbótartíma.

„Ég sagði við hann að þetta hefði verið laglega gert. Það er um að gera að halda stráknum á jörðinni því hann þarf að standa af sér mikla athygli á næstu dögum," sagði Ferguson við fréttamenn eftir leikinn.

„Þetta  var áhætta en við verðskulduðum þessi úrslit í dag því við lékum til sigurs. Áhætta er hluti af fótboltanum. Við vörðumst ekki vel en erum alltaf líklegir til að skora," sagði Ferguson og kvaðst hafa hvatt sína menn til að fylgja eftir jöfnunarmarkinu frá Cristiano Ronaldo á 79. mínútu í stað þess að vera sáttir við jafnteflið.

„Svona hefur þetta félag spilað um langt árabil. Ég elska spennuna sjálfur og elska að sjá ævintýrin  gerast. Vissulega tökum við stundum skelfilega áhættu og verjumst ekki eins og menn. En það er alltaf í spilunum að við sigrum. Við erum búnir að taka út okkar mistök og í dag vorum við án 7-8 leikmanna, þar af 4-5 lykilmanna. En við sáum að ungu mennirnir okkar eru tilbúnir til að fara alla leið," sagði Alex Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert