Luton krækti í bikar á Wembley

Luton Town, botnliðið í ensku deildakeppninni í knattspyrnu, vann í dag frækinn sigur á einu af efstu liðum 2. deildar, Scunthorpe, í úrslitaleiknum í bikarkeppni neðrideildaliðanna á Wembley í London. Þetta er sama keppni og Guðjón Þórðarson vann með Stoke á fyrsta tímabili sínu þar, vorið 2000.

Luton Town er þekkt félag þrátt fyrir núverandi stöðu sína sem botnlið 3. deildar. Það lék í efstu deild frá 1982 til 1992 og vann deildabikarinn á Wembley árið 1988. Luton féll úr 2. deildinni síðasta vor, fyrst og fremst vegna þess að mörg stig voru tekin af liðinu vegna greiðslustöðvunar.

Vegna áframhaldandi fjárhagsvandræða hóf Luton keppni með 30 stig í mínus í 3. deildinni í haust og hefur því í raun verið dauðadæmt frá upphafi. Liðið hefur enda ekki komist úr botnsætinu og fallið útúr deildakeppninni blasir við, enda þótt árangur þess í leikjunum sjálfum hefði haldið því um miðja deildina.

En í dag voru leikmenn Luton hetjur á Wembley og í lýsingu BBC segir að sennilega hafi aldrei neinir sigurvegarar sést fagna sigri jafn innilega og þeir gerðu fyrir stundu á þessum sögufræga leikvangi. Luton vann, 3:2, í framlengdum leik þar sem Scunthorpe jafnaði metin, 2:2, í lok venjulegs leiktíma. Franskur leikmaður, Claude Gnakpa, var hetja Luton en hann skoraði í upphafi framlengingar og síðan vörðust hann og félagar hans sóknum Scunthorpe með kjafti og klóm til leiksloka.

Þrátt fyrir stöðu liðanna í dag höfðu stuðningsmenn Luton mikla yfirburði á Wembley í leiknum. Þeir voru um 40 þúsund talsins á meðan Scunthorpe var aðeins með 12 þúsund áhorfendur á sínu bandi. Enda er Luton gamalgróið félag, varð fyrsta félagið í suðurhluta Englands til að taka upp atvinnumennsku árið 1890, og það á m.a.s. einhverja stuðningsmenn hér á Íslandi.

Luton þótti um skeið eitt skemmtilegasta liðið í ensku knattspyrnunni, skartaði nokkrum enskum landsliðsmönnum, og kom til Íslands og spilaði gegn Reykjavíkurúrvali á gervigrasinu í Laugardal í 10 stiga frosti en fallegu veðri um miðjan janúar 1985. Meðal leikmanna þess þá voru Mick Harford, sem er núverandi knattspyrnustjóri félagsins, og þeir Ricky Hill, Brian Stein og Steve Forster sem allir þekktu sem þá fylgdust með enska fótboltanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert