Sautján ára ítalskur nýliði, Federico Macheda, tryggði Manchester United sigur á Aston Villa, 3:2, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag með marki á þriðju mínútu í uppbótartíma. Þar með náði Manchester United að komast uppfyrir Liverpool á ný og í efsta sæti deildarinnar.
Bein textalýsing frá Old Trafford.
Manchester United er þá með 68 stig á toppnum og á einn leik til góða á Liverpool sem er með 67 stig. Aston Villa er í fimmta sætinu með 52 stig og er sex stigum á eftir Arsenal sem er í fjórða sætinu. Lengi vel stefndi í sigur Aston Villa sem var 2:1 yfir þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.
Cristiano Ronaldo kom United yfir eftir 14 mínútna leik.
Norðmaðurinn John Carew jafnaði metin með marki með skalla á 30. mínútu, 1:1.
Gabriel Agbonlahor kom Aston Villa yfir með skallamarki á 58. mínútu, 1:2.
Cristiano Ronaldo jafnaði fyrir Manchester United, 2:2, með skoti frá vítateig á 80. mínútu.
Táningurinn Federico Macheda, sem lék sinn fyrsta deildaleik með Manchester United, kom inná sem varamaður og skoraði glæsilegt mark á þriðju mínútu í uppbótartíma, 3:2.