Cristiano Ronaldo ítrekaði enn og aftur löngun sína að vera um kyrrt í herbúðum Manchester United á fréttamannafundi sem haldinn var á Old Trafford í dag vegna leiks United og Porto í Meistaradeildinni sem fram í Manchester annað kvöld. Fregnir bárust af því um helgina að United væri búið að taka 75 milljón punda tilboði frá Real Madrid en því vísaði Sir Alex Ferguson á bug.
,,Við fáum alltaf þessa spurningu en ég er ánægður hér og í mínum huga er Manchester United rétta félagið fyrir mig,“ sagði Ronaldo en hann og Sir Alex Ferguson sátu fyrir svörum fréttamanna í dag.
Sir Alex sagði að fregnirnar um Ronaldo og Real Madrid væru lágkúrulegar en á síðasta ári lét Ferguson út úr sér að hann myndi ekki einu sinni selja Real Madrid vírus.
Ronaldo átti stóran þátt í sigri Manchester United á Aston Villa í gær en Portúgalinn skoraði tvö mörk í leiknum og hefur þar með skorað 20 mörk á leiktíðinni.
,,Við erum besta liðið á Englandi. Við sýnum það með því að vera í toppsætinu í deildinni. Við berum virðingu fyrir keppinautum okkar en ef við höldum okkur áfram á sigurbrautinni þá vinnum við titilinn aftur. Við eigum möguleika á að vinna alla titlana sem eru í boði á leiktíðinni en fyrst þurfum við að vinna Porto. Eftir það verðum við að halda áfram okkar striki,“ sagði Ronaldo.