Benítez: Ferguson er hræddur við okkur

Rafael Benítez fylgist með fyrirliðanum Steven Gerrard á æfingu hjá …
Rafael Benítez fylgist með fyrirliðanum Steven Gerrard á æfingu hjá Liverpool í dag. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að það væri ljóst af orðum Alex Fergusons, kollega síns hjá Manchester United, að hann væri hræddur við Liverpool og væri stöðugt að reyna að setja sig og sína menn úr jafnvægi með ummælum sínum.

Ferguson sagði eftir sigur United á Aston Villa á sunnudag að það yrði sigurvegarinn í viðureign Liverpool og Chelsea í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem myndi geta ógnað Manchester United í slagnum um enska meistaratitilinn. United er þar með eins stigs forystu á Liverpool og fjögurra stiga forystu á Chelsea, og á auk þess einn leik til góða á bæði liðin.

„Hann talar of mikið um mótherja sína. Ég tek ekki þátt í svona sálfræðihernaði, ég held að hann sé bara hræddur við okkur. Hann talaði um okkur enn og aftur og ég vil því taka fram að það skiptir engu máli hvort við eða Chelsea töpum í þessum leikjum. Liðið sem tapar í Meistaradeildinni verður enn einbeittara í úrvalsdeildinni, og það gæti reynst United erfiðari andstæðingur," sagði Benítez við fréttamenn í dag.

„Samkvæmt þessu mun Ferguson halda með Liverpool í leikjunum við Chelsea, því hann telur mestu ógnina stafa af okkur. Ef við komumst lengra í Meistaradeildinni telur hann að við verðum þreyttir, en ef við komumst ekki áfram, stafar hætta af okkur. Ef Chelsea kemst ekki áfram, veit hann að honum stafar hætta af þeim. Sama hvernig fer, hann tapar alltaf, samkvæmt þessu," sagði Benítez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka