Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, telur að lið sitt hafi alla burði til að landa báðum stóru titlunum í vor, enska meistaratitlinum og Evrópumeistaratitlinum. Liverpool tekur á móti Chelsea á Anfield í dag kl. 18.45 en það er fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
„Ég tel að við séum tilbúnir í slaginn um báða titlana. Sjálfstraustið í liðinu er nóg, við spilum vel og sköpum okkur nóg af marktækifærum í hverjum einasta leik. Nú reynum við að halda sama takti í okkar leik, við höfum sýnt að við getum sigrað hvaða lið sem er og eigum því að hafa fullt sjálfstraust til að fara alla leið á báðum vígstöðvum," sagði Benítez á vef Liverpool í dag.
Hann býst að sjálfsögðu við sérlega erfiðum leik gegn Chelsea í kvöld en þetta er fimmta árið í röð sem félögin mætast í Meistaradeild Evrópu. Í fyrra var það Chelsea sem hafði betur eftir að hafa náð jöfnu á Anfield í fyrri viðureigninni.
„Gegn bestu liðunum eru það oft smáatriðin sem skilja á milli, eins og ég er stöðugt að hamra á. Leikirnir við Chelsea eru gott dæmi um það, við höfum oft spilað gegn þeim og sjálfsmark, vítaspyrna og enn smærri atriði hafa gert útslagið. Þetta verður erfitt því Chelsea er afar reynslumikið lið og þekkja vel til okkar, en ef við spilum eins og gegn Real Madrid sigrum við hvaða mótherja sem er," sagði Benítez og kvaðst viss um að ósigurinn gegn Chelsea í keppninni í fyrra myndi hjálpa til að þessu sinni.
„Það er ljóst að leikmennirnir sem tóku þátt í þeim leikjum ætla sér ekki að upplifa það aftur. Þegar menn tapa naumlega leggja þeir allt í sölurnar í næsta skipti svo það endurtaki sig ekki. Nú fáum við tækifæri til að bæta fyrir það tap og gerum allt sem við getum til þess," sagði Rafael Benítez.