Það var að vonum létt yfir Guus Hiddink knattspyrnustjóra Chelsea eftir sigur hans manna á Liverpool í kvöld. Chelsea sigraði 3:1 á Anfield og steig stórt skref í átt að undanúrslitunum.
,,Ef þú skorar á útivelli í Meistaradeildinni er það mikið áfall fyrir mótherjann og það ætluðum við okkur að gera. Við vildum gera Gerrard óvirkan og vera þéttir fyrir í varnarleiknum. Þessir hlutir gengu upp en það er bara hálfleikur í einvíginu,“ sagði Hiddink. ,,Við megum alls ekki hugsa að seinni leikurinn verði formsatriði. Liverpool hefur sýnt hversu það er megnugt.“
Rafael Benítez:
,,Við skoruðum fyrsta markið og gerðum vel til að byrja með. En okkur var refsað illilega fyrir mistökin í varnarleiknum. Chelsea liðið er stórhættulegt í föstum leikatriðum og við voru ekki nægilega vel á verði. Við erum ekki úr leik en það er ljóst að okkar bíður erfitt verkefni. Við verðum að reyna að spila vel og reyna að skora þrjú mörk,“ sagði Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool.