Serbneski varnarmaðurinn Branislav Ivanovic var líklega sá leikmaður sem fæstir þekktu eitthvað til af þeim sem tóku þátt í leik Liverpool og Chelsea í Meistaradeild Evrópu á Anfield í gærkvöld. En Ivanovic stal heldur betur senunni með því að skora tvö fyrri mörk Chelsea í 3:1 sigrinum, bæði með skalla eftir hornspyrnur.
„Ég er hæstánægður með Ivanovic. Sá sem kemur til félags á borð við Chelsea og nær ekki að festa sig strax í sessi á erfiða baráttu fyrir höndum. En hann hefur verið geysilega ákveðinn á æfingum og sýnt mikinn styrk og gott hugarfar," sagði Guus Hiddink um hægri bakvörðinn eftir leikinn.
Chelsea keypti Ivanovic af Lokomotiv Moskva í Rússlandi í janúar 2008, fyrir 9 milljónir punda, og þetta voru fyrstu mörk hans fyrir félagið. Þau komu svo sannarlega á réttum tíma.
Ivanovic er nýorðinn 25 ára og hefur á undanförnum árum þótt einn efnilegasti knattspyrnumaður Serba. Hann var fyrirliði 21-árs landsliðs Serbíu og Svartfjallalands og var valinn í úrvalslið úrslitakeppni EM 21-árs landsliða árið 2007 þegar liðið hlaut silfurverðlaun. Hann er fjölhæfur og getur spilað allar stöðurnar í vörninni, einnig sem varnartengiliður, og hefur verið markheppinn með landsliði Serba en hann er markahæsti leikmaður þess í undankeppni HM sem nú stendur yfir, með 3 mörk.
Ivanovic spilaði fyrst með Remont Cacak og Srem en síðan með OFK Belgrad í þrjú ár áður en hann var keyptur af rússneska liðinu Lokomotiv í ársbyrjun 2006. Þar var hann í stóru hlutverki bæði árin sem hann spilaði með liðinu og varð rússneskur bikarmeistari með því 2007.
Þó hann kæmi til Chelsea í janúar 2008 fékk Ivanovic ekkert tækifæri með liðinu það sem eftir lifði síðasta tímabils. Avram Grant, þáverandi knattspyrnustjóri, taldi hann ekki í nægilega góðu líkamlegu formi þegar hann kom. Fyrsta tækifærið með aðalliði Chelsea fékk Ivanovic í september 2008, gegn Portsmouth í deildabikarnum, og hefur spilað 10 leiki með liðinu í vetur. Litlu munaði að hann yrði seldur til Fiorentina á Ítalíu í lok janúar.
Guus Hiddink valdi hann svo í fyrsta skipti í byrjunarlið sitt um síðustu helgi þegar Chelsea vann Newcastle á útivelli, 2:0, í úrvalsdeildinni. Nokkrum dögum áður hafði Ivanovic skorað sigurmark Serba gegn Rúmenum í undankeppni HM.