Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að það sé sem betur fer ekki sitt vandamál að finna eftirmann sinn en gefur til kynna að hann hefði ekkert á móti því að José Mourinho tæki við liðinu þegar þar að kemur.
Ferguson hefur gefið í skyn að næsta vor, 2010, verði líklega kominn tími til að setjast í helgan stein en hann hefur þó ekkert staðfest í þeim efnum og talar líka um að stjórna liðinu í tvö til þrjú ár enn. Mourinho, sem nú stýrir Ítalíumeisturum Inter Mílanó, hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur eftirmaður hans, sem og þeir David Moyes hjá Everton og Martin O'Neill hjá Aston Villa.
„Ég er feginn að þurfa ekki að taka þessa ákvörðun en hver sem það verður, þarf að vera reyndur. Manchester United er mikið félag, allt annað og stærra en félagið sem ég tók við árið 1986. Ég kann mjög vel við José Mourinho, hann er fínn náungi og við erum miklir mátar," sagði Ferguson í viðtali við sjónvarpsstöðina CNN.
„Fólk gleymir því hinsvegar hversu hratt hlutirnir breytast í fótboltanum og starf knattspyrnustjóra er brothætt. Maður getur verið bestur í heimi eina stundina en tveimur tapleikjum síðar ertu sá versti. Vonandi verð ég hér í tvö til þrjú ár enn og það veit enginn hvað gerist á meðan. Það er útilokað að velta fyrir sér á þessari stundu hvort það verði José Mourinho, Arsene Wenger, eða einhver allt annar," sagði Ferguson, sem er 67 ára gamall og hefur stjórnað Manchester United í ríflega þriðjung ævinnar.
Í viðtalinu sagði hann ennfremur að það væri sín heitasta ósk að færa Manchester United tvo Evrópumeistaratitla í viðbót áður en hann settist í helgan stein. Það væru þeir titlar sem ættu að vera fleiri í safni félagsins.