Hermann: Fell ekki í fimmta sinn

Hermann Hreiðarsson fer í mikilvægan leik með Portsmouth á morgun.
Hermann Hreiðarsson fer í mikilvægan leik með Portsmouth á morgun. Reuters

Hermann Hreiðarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu og leikmaður Portsmouth, segir að hann óttist ekki að það verði örlög sín að falla í fimmta skipti úr ensku úrvalsdeildinni í vor.

Hermann hefur upplifað það fjórum sinnum, með Crystal Palace, Wimbledon, Ipswich og Charlton, og Portsmouth er í fallslag deildarinnar um þessar mundir, fjórum stigum fyrir ofan Newcastle sem situr í fallsæti.

Hermann segir í viðtali á vef Portsmouth í dag að þessi fallbarátta sé öðruvísi en þær sem hann hefur áður gengið í gegnum.

„Við erum með geysilega reynt lið, fjölda landsliðsmanna sem hafa spilað ógrynni af stórleikjum á sínum ferli og það mun örugglega hjálpa okkur. Við erum vel settir því þetta er allt í okkar eigin höndum og við erum með fínan leikmannahóp. Við erum allir fullir sjálfstrausts og teljum að við munum vinna okkur útúr þessum vandræðum.

En við megum ekki vera værukærir. Síðustu leikir hafa verið í lagi en við þurfum að gera betur. Því fyrr sem við krækjum í stigin sem tryggja veru okkar í deildinni, því betra. Við eigum tvo heimaleiki framundan og sex stig úr þeim gætu nægt okkur. En núna gildir gamla klisjan - við verðum að hugsa um einn leik í einu," sagði Hermann.

Portsmouth tekur á móti botnliðinu WBA á morgun og Hermann segir að þar megi ekkert vanmat vera á ferðinni. „Við vitum hvað er í húfi. Núna eru allir leikir eins og bikarúrslitaleikir í okkar augum - en þannig er staðan líka hjá WBA. Við þurfum að fá áhorfendur í lið með okkur og gera stemmninguna fjandsamlega gestunum, og vera klárir í að gefa allt okkar í leikinn. Menn eru stöðugt að reikna í huganum um þetta leyti árs en það sem skiptir mestu máli er að vera tilbúinn þegar flautað er til leiks. Við viljum ekki vera þar sem við erum núna í deildinni en orðið fall er ekki til í okkar orðaforða. Við erum tilbúnir til að bretta upp ermar og taka á þessu," sagði Hermann á vef Portsmouth í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert