Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hrósaði ítalska táningnum Federico Macheda eftir sigur liðsins á Sunderland á Leikvangi ljóssins í dag. Ítalinn skoraði sigurmark leiksins eftir að hafa verið inná vellinum í 46 sekúndur en Ferguson ákvað að skipta honum inná fyrir Dimiar Berbatov þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir.
Macheda, sem er 17 ára gamall, skoraði sigurmark United gegn Aston Villa um síðustu helgi í sínum fyrsta leik með aðalliðinu.
,,Það er eitthvað sérstakt við strákinn. Ég hef ekki séð markið en einn leikmanna minna sagði að hann reynt þetta,“ sagði Ferguson eftir leikinn en Macheda náði að stýra skoti frá Michael Carrick og í netið fór boltinn.
,,Hann er fljótur að hugsa eins og markaskorara sæmir,“ sagði Ferguson sem sagðist ekki hafa þurft að segja neitt sérstakt við Ítalann þegar hann skipti honum inná völlinn. ,,Ég þakka fyrir að hafa sett strákinn inná og þetta var afar sterkur útisigur sem gefur okkur vonandi byr í seglin,“ sagði Ferguson en næsti leikur liðsins er gegn Porto á miðvikudaginn og um næstu helgi mætir United liði Everton í undanúrslitum bikarkeppninnar.