Liverpool burstaði Blackburn og fór á toppinn

Fernando Torres fagnar öðru marki sínu á Anfield í dag.
Fernando Torres fagnar öðru marki sínu á Anfield í dag. Reuters

Liverpool er komið á topp ensku úrvalseildarinnar í knattspyrnu eftir afar sannfærandi 4:0 sigur á grönnum sínum í Blackburn á Anfield í dag. Fernando Torres skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og Daninn Daniel Agger og David N`Gog bættu tveimur mörkum við undir lokin. Liverpool hefur tveggja stiga forskot á Manchester United sem mætir Sunderland klukkan 14.

Hægt er að fylgjast með leiknum hér

90. Mike Riley flautar til leiksloka.

89. David N`Gog varamaður Liverpool skorar fjórða mark heimamanna með skalla af stuttu færi.

82. Danski miðvörðurinn Daniel Agger er að gulltryggja sigur Liverppol. Daninn lét skotið ríða af utan vítateigsins og boltinn steinlá í netinu. Glæsilegt mark en Agger var búinn að eiga tvö frekar döpur skot í fyrri hálfleik.

73. Torres nær ekki þrennunni að þessu sinni en Benítez ákveður að taka Spánverjann af velli og hvíla hann fyrir átökin gegn Chelsea í Meistaradeildinni. Inná í hans stað er kominn El Zhar.

63. Albert Riera, sem hefur átt afar góðan leik fyrir Liverpool, þræðir sig í gegnum vörn Blackburn en skot hans með hægri fæti, þeim verri, fór framhjá markinu.

45. Íslandsvinurinn Mike Riley hefur flautað til leikhlés á Anfield. Staðan er 2:0 fyrir Liverpool sem hefur haft mikla yfirburði og gestirnir heppnir að vera ekki meira undir. Liverpool hefur átt 11 marktilraunir en Blackburn aðeins 1.

33. Fernando Torres er búinn að koma Liverpool í 2:0 en Spánverjinn skoraði með föstum skalla eftir aukaspyrnu frá landa sínum Xabi Alonso. Markið lá í loftinu og ef fram heldur sem horfir eiga heimamenn eftir að bæta fleiri mörkum við. Torres er þar með kominn með 11 mörk í deildinni.

27. Paul Robinson markvörður Blackburn ver glæsilega kollspyrnu frá Dirk Kuyt af stuttu færi eftir glæsilega sókn Liverpool.

15. Liverpool fær úrvalsfæri. Fyrst varði Robinson frá Mascherano úr góðu færi. Torres náði frákastinu en skot hans fór framhjá. Það stefnir í langan og strangan dag hjá Blackburn.

5. Fernando Torres er búinn að koma Liverpool í 1:0 með stórglæsilegu marki. Torres fékk sendingu inn á vítateiginn, tók boltann niður á brjóstið og skoraði með viðstöðulausu skoti sem Paul Robinson átti ekki möguleika á að verja. Eitt af fallegri mörkum á tímabilinu.

Xabi Alonso í baráttu við Keith Treacy á Anfield í …
Xabi Alonso í baráttu við Keith Treacy á Anfield í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert