Mourinho spáir United sigri á Porto

Jose Mourinho kemur skilaboðum áleiðis til leikmanna Inter. Í baksýn …
Jose Mourinho kemur skilaboðum áleiðis til leikmanna Inter. Í baksýn glittir í Sir Alex Ferguson. Reuters

Jose Mourinho þjálfari Inter spáir því að Manchester United vinni Porto í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn og komist þar með í undanúrslit keppninnar en liðin skildu jöfn, 2:2, á Old Trafford á þriðjudagskvöldið.

Englands- og Evrópumeistararnir þurfa að komast yfir ansi erfiðan múr því engu ensku liði hefur tekist að leggja Porto á þeirra heimavelli.

,,Hversu oft hefur Manchester United brotið hefðir og venjur?“ segir Mourinho í viðtali við Sunday Mirror í dag en Mourinho var við stjórnvölinn hjá Porto árið 2004 þegar liðið sló Manchester United út í Meistaradeildinni og endaði sem Evrópumeistari. Hann stýrði Inter á dögunum gegn United í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar þar sem United hafði betur.

,,Sir Alex Ferguson er sérfræðingur í svona leikjum og United hefur þau gæði sem til þarf til vinna allt semí boði er. Porto hefur komið sér í frábæra stöðu og leikmenn liðsins hugsa til undanúrslitanna,“ segir Mourinho, sem varar sína gömlu félaga við Wayne Rooney.

,,Wayne Rooney er leikmaður sem Porto verður að hafa hemil á. Hann spilar óttalaus og hver sem spilar án ótta mun aldrei verða meðvitaður hversu mikilvægt þetta tilefni er. Rooney er leikmaður stórleikjanna,“ sagði Mourinho sem margir spá því að taki við Sir Alex þegar hann ákveður að setjast í helgan stein.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert