Fengi Macheda enga medalíu?

Macheda fagnar sigurmarkinu gegn Sunderland á laugardaginn.
Macheda fagnar sigurmarkinu gegn Sunderland á laugardaginn. Reuters

Ítalska ungstirnið Federico Macheda hefur reynst Englandsmeisturum Manchester United betri en enginn í baráttu liðsins við að verja titilinn. Hann skoraði sigurmark á ögurstundu gegn Aston Villa fyrir rúmri viku og endurtók svo leikinn gegn Sunderland á laugardag. Hins vegar er óvíst að hann hljóti gullmedalíu endi United á toppi deildarinnar í vor.

Leikirnir tveir sem Macheda hefur skorað í eru nefnilega einu deildaleikirnir sem hann hefur spilað með aðalliði United. Liðið á nú eftir að leika sjö leiki í deildinni á þessari leiktíð en enska knattspyrnusambandið setur það sem skilyrði að leikmenn spili 10 leiki á leiktíðinni til þess að hljóta medalíu, og ljóst að Macheda mun ekki geta uppfyllt það skilyrði.

Fordæmi eru þó fyrir því að leikmenn sem leika færri en tíu leiki fái medalíu. Þannig fékk Alan Smith, þáverandi leikmaður United, medalíu árið 2007 þrátt fyrir að hafa aðeins getað leikið níu leiki vegna meiðsla. Að sama skapi hafa varamarkverðir oft hlotið medalíu þrátt fyrir að spila ekki tíu leiki á leiktíð.

Macheda ætti því að eiga ágætis möguleika á að fá gullmedalíu fari svo að United hampi Englandsmeistaratitlinum í vor enda hafa mörkin hans reynst gulls ígildi.

Mikil spenna er í toppbaráttu úrvalsdeildarinnar en United er þar stigi á undan Liverpool og á einn leik til góða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert