Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, var vonsvikinn yfir því að fjögur mörk á Stamford Bridge í kvöld skyldu ekki nægja til að slá Chelsea út í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
„Við erum vonsviknir því við skoruðum fjögur mörk á útivelli en unnum samt ekki leikinn. En ég er stoltur af leikmönnum okkar og stuðningsmönnum. Þegar við skoruðum annað mark okkar hafði ég fulla trú á að við færum áfram, en þegar menn gera mistök gegn Chelsea er þeim refsað," sagði Benítez við BBC.
Liverpool komst í 2:0 í fyrri hálfleik og hafði þá jafnað upp forskot Chelsea frá fyrri leiknum en þurfti eitt mark enn til að fara áfram. Eftir þrjú Chelseamörk í seinni hálfleik skoraði Liverpool tvívegis og var komið í 4:3 - vantaði þá aftur eitt mark til að fara áfram - en Frank Lampard gerði þær vonir að engu með jöfnunarmarki í lokin, 4:4.