Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool vonast til að fyrirliðinn Steven Gerrard verði orðinn heill heilsu þegar liðið tekur upp þráðinn í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool fær Arsenal í heimsókn á þriðjudaginn.
Reiknað hafði verið með því að Gerrard leiddi sína menn út á völlinn gegn Chelsea á Stamford Bridge í gærkvöld en svo var ekki. Meiðslin í nára tóku sig upp á lokaæfingu Liverpool-liðsins fyrir leikinn.
,,Hann fann fyrir einhverju svo hann gat ekki verið með okkur. Við héldum að hann gæti spilað en því miður var svo ekki. Að missa lykilmann er alltaf erfitt og sérstaklega mann á borð við Gerrard. Þetta er ekkert alvarlegt og vonandi jafnar hann sig fljótt,“ segir Benítez en hans menn fá nú kærkomið frí þar sem leikið verður í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar um næstu helgi.