Evrópumeistararnir komnir áfram

Ronaldo gerði sigurmarkið í kvöld og var það í glæsilegri …
Ronaldo gerði sigurmarkið í kvöld og var það í glæsilegri kantinum. Reuters

Evrópumeistarar Manchester United eru komnir áfram í undanúrslit Meistaradeildarinnar í knattspyrnu, eftir 1:0 sigur gegn Porto í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum keppninnar. Ronaldo skoraði sigurmarkið strax á 6. mínútu með bylmingsskoti langt fyrir utan teig.

Viðureignin fór því 3:2 samanlagt fyrir Manchester United, en óhætt er að segja að leikurinn í kvöld hafi ekki verið nærri því eins mikil skemmtun og fyrri leikurinn. Man. Utd stjórnaði leiknum nánast frá upphafi, pressaði stíft í byrjun og uppskáru mark. Í seinni hálfleik vörðust þeir þó aftarlega og biðu skyndisókna, en leyfðu Porto aldrei að ógna marki sínu verulega, þó svo pressan hafi aukist lítillega undir lokin.

Manchester United mætir því Arsenal í undanúrslitum keppninnar, sem bar sigurorð af Villarreal í kvöld, 3:0.

90. +1 Ronaldo á lúmskt skot sem er varið í horn. Aðeins þremur mínútum bætt við.

85. Mariano á besta færi Porto þegar hann skýtur viðstöðulausum jarðarbolta að marki eftir sendingu utan af kanti. Skotið var þó auðveldlega varið.

83. Rooney á skot yfir mark Porto. Pressa Porto er aðeins að þyngjast, en þeir þurfa aðeins eitt mark til að komast áfram. Sóknir þeirra virðast þó skeinulitlar, þeir beita helst langskotum sem bera ekki árangur ennþá.

79. Porto á hættulegan skalla yfir mark Man. Utd eftir hornspyrnu. Annars hefur hálfleikurinn verið frekar rólegur og lítið um færi.

58. Porto fær aukaspyrnu á góðum stað rétt utan teigs Man. Utd. Hulk á fast skot að marki en Van der Sar ver auðveldlega.

48. Meireles á skot rétt yfir mark Man. utd eftir mistök Evra sem missti boltann klaufalega í vörninni.

47. Berbatov á fyrsta færið í seinni hálfleik, en laust skot hans er varið. Hellirigning er á Dragao-vellinum í Porto.

Hálfleikur. Evrópumeistarar Man. Utd eru betri aðilinn í leiknum og ná að halda boltanum ágætlega og pressa á Porto. Man. Utd hefur verið með boltann 57% leiktímans og hefur náð að skapa sér hættulegri færi.

45 +1. Giggs á laglegt þríhyrningaspil sem endar með hættulegri fyrirgjöf, en Helton ver í marki Porto.

44. Vidic fær dauðafæri eftir hornspyrnu að marki Porto, en skóflar boltanum yfir af 2 metra færi.

41. Bruno Alves á hörkuskalla að marki Man. Utd eftir aukaspyrnu utan af velli, en framhjá.

31. Lucho fer meiddur af velli, en Mariano kemur í hans stað í liði Porto.

30. Ronaldo kemst upp að endamörkum og sendir fyrir, boltinn berst til Giggs sem á gott skot að marki en það er varið.

25. Lisandro nær ágætis bakfallsspyrnu í teig Man. Utd en van der Sar ver skotið.

20. Bruno Alves á hættulega aukaspyrnu að marki Man. Utd. en boltinn fer rétt framhjá.

06. Ronaldo bombar boltanum í fjærhornið af 30 metra færi og United er komið með forystu.

Byrjunarliðin eru eftirfarandi:

Man. Utd- Edwin Van der Sar, John O´Shea, Rio Ferdinand, Nemanja Vidic, Patrice Evra, Ryan Giggs, Michael Carrick, Anderson, Wayne Rooney, Dimitar Berbatov, Cristiano Ronaldo.

Varamenn-Ben Foster, Gary Neville, Jonni Evans, Nani, Paul Scholes, Carlos Tévez, Federico Macheda.

Porto- Helton, Cristian Sapunaru, Rolando, Bruno Alves, Aly Cissokho, Lucho Gonzales, Fernando, Raul Meireles, Lisandro Lopez, Hulk, Cristian Rodriguez.

Varamenn-Santo Nuno, Milan Steponov, Fredy Guarin, Mariano Gonzalez, Tomas Costa, Anres Madrid, Erneseto Farias.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert