Liverpool ætlar að losa sig við hollenska landsliðsmanninn Ryan Babel í sumar að því er fram kemur í enskum fjölmiðlum í dag. Liverpool keypti Babel frá Ajax fyrir tveimur árum og greiddi fyrir hann 11,5 milljónir punda en Hollendingurinn hefur ekki náð að festa sig í sessi og er hundóánægður með stöðu sína hjá liðinu.
Babel hefur fengið fá tækifæri eftir að Liverpool fékk spænska landsliðsmanninn Albert Riera til liðs við sig fyrir tímabilið en Hollendingurinn hefur aðeins sex sinnum verið í byrjunarliðinu á tímabilinu.
Fleiri leikmenn gætu verið á förum frá Liverpool en Rafael Benítez knattspyrnustjóri liðsins er eins og fleiri kollegir hans að púsla saman leikmannahópi þessa dagana sem hann hyggst tefla fram á næstu leiktíð.
Ítalski bakvörðurinn Andrea Dossena og danski miðvörðurinn Daniel Agger, sem rennur út á samningi eftir næsta tímabil, eru líklegir til að verða seldir í sumar ásamt Babel.