Stríðið á milli Ferguson og Benítez heldur áfram

Sir Alex kuldalegur á æfingu Manchester United á Carrington æfingasvæðinu …
Sir Alex kuldalegur á æfingu Manchester United á Carrington æfingasvæðinu í morgun. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hélt í morgun áfram að skjóta á kollega sinn hjá Liverpool, Rafael Benítez, en þeir hafa eldað grátt silfur saman síðustu vikurnar og hafa sent hvor öðrum hverja ,,pilluna“ á fætur annarri.

Ferguson minntist orða Benítez þegar hann sagði Everton vera lítið félag en Ferguson og hans menn eru að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Everton í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar sem fram fer á Wembley á sunnudaginn.

,,Everton er stórt og öflugt félagi og knattspyrnustjórinn David Moyes hefur unnið frábært starf með félagið. Benítez talaði um að Everton væri lítill klúbbur sem er vísbending um hroka hans,“ sagði Ferguson.

Ferguson sagði við fréttamenn í morgun að Benítez hefði sýnt Sam Allardyce knattspyrnustjóra Blackburn lítilsvirðingu í 4:0 sigri Liverpool á Blackburn um síðustu helgi. Ferguson sagði að Benítez hefði látið í ljós að úrslitin í leiknum væri ráðin þegar Fernando Torres skoraði annað mark Liverpool í leiknum á 33. mínútu.

,,Ég held að enginn annar knattspyrnustjóri Liverpool hefði gert þetta og ég held að Sam Allardyce hafi ekki verðskuldað þetta. Sam hefur unnið gott verk fyrir Samtök knattspyrnustjóra og lið hans veikara. Þetta fannst mér vera merki um lítilsvirðingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka