Varnarmaður Manchester United, Rio Ferdinand, segir lið sitt ekki fá dæmdar vítaspyrnur hjá dómurum, en í undanúrslitaleik ensku bikarkeppninnar gegn Everton í gær virtist sem liðið hefði átt að fá vítaspyrnu í venjulegum leiktíma, þegar Danny Welback féll við inni í teig eftir viðskipti sín við Phil Jagielka.
„Ég veit ekki hvernig dómarinn fór að því að dæma ekki víti, en svona er þetta bara. Við fáum ekki margar vítaspyrnur þessa dagana. Dómarar virðast ekki vilja gefa okkur víti. Kannski eru þeir undir pressu fjölmiðla, ég skal ekki segja. Við munum hinsvegar ekki dvelja við þetta atriði, því þegar öllu er á botninn hvolft, vorum við ekki nógu góðir í vítaspyrnukeppninni,“ sagði Ferdinand.
Everton vann leikinn í vítaspyrnukeppni, 4:2.