Ferguson hætti ekki stjörnunum á Wembley

Alex Ferguson fylgist með vítaspyrnukeppninni í gær ásamt liðsmönnum sínum.
Alex Ferguson fylgist með vítaspyrnukeppninni í gær ásamt liðsmönnum sínum. Reuters

Rétt eins og Arsene Wenger gerði eftir tap Arsenal gegn Chelsea á laugardag, gerði Alex Ferguson ástand Wembley-vallarins að umtalsefni eftir að lið hans var slegið útúr ensku bikarkeppninni af Everton í gær. Ferguson kvaðst hafa hvílt lykilmenn vegna þess hve völlurinn væri slæmur.

Þeir Cristiano Ronaldo, Wayne Rooney og Edwin van der Sar voru meðal þeirra sem ekki spiluðu í gær og þeir Paul Scholes, Dimitar Berbatov og Patrice Evra sátu allir á varamannabekknum.

„Þegar ég sá völlinn tók ég þá ákvörðun að það gengi ekki að fara jafnvel í framlengdan leik með mitt sterkasta lið. Völlurinn var svampkenndur og grasið virtist dautt, og það var erfitt að spila boltanum hratt. Þess vegna tókum við þá djörfu ákvörðun að láta ferkar yngri mennina spila. Þegar öllu er á botninn hvolft, er það grunnhugmynd hjá félaginu að gefa ungum mönnum tækifæri, og þeir ollu ekki vonbrigðum með sinni frammistöðu," sagði Ferguson við BBC.

Það tók sjö ár að endurbyggja Wembley-leikvanginn, fyrir 750 milljónir punda, en vallaryfirvöld hafa setið undir talsverðri gagnrýndi síðan hann var opnaður á ný, fyrir að grasið á vellinum skuli ekki vera betra en raun ber vitni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert